A review by agusto74
The Cunning Man by Robertson Davies

3.0

Þetta er í annað skiptið sem ég les þessa bók. Fyrra skiptið var sennilega einhvern tímann rétt fyrir aldarlokin síðustu, sennilega 1999. Ég man að mér þótti mikið til bókarinnar koma þá. Þetta var önnur bók Davies sem ég kláraði og mér fannst hann vera að lofa mér bót og betrun, það var eitthvað göfgandi við bækur hans sem leiddi til þess að á næstu árum las ég allar skáldsögur hans.

Fyrir skemmstu las ég tvö ritgerðarsöfn eftir hann og naut þess. Ekki laust við að stíll hans þar hafi litað eigin stíl í lokaritgerðinni fyrir Sibelíusar Akademíuna. Robertson Davies, í sem stystu máli, var sumsé einn af mínum uppáhalds rithöfundum. Hverjum er það þá að kenna að verðgildi hans hafi hrunið með slíkum hætti á ekki lengri tíma en einu og hálfu ári?

Því núna fannst mér hann á köflum pirrandi. Af hverju er maðurinn í sífellu að eyða orku í að passa uppá að lesendur með Alzheimir haldi í við söguþráðinn? Og af hverju finnst mér einsog útskýringar sögumanns á formi og uppbyggingu sögunnar séu hálf klaufalegar. Kannski vegna þess að formið er dálítið klaufalegt.

Sögumaðurinn Hullah er í miðju viðtali í byrjun bókarinnar (nútíð) en á sama tíma erum við að lesa minnispunkta (frásögn) hans í Málabók (Case book) sinni, sem hljóta að hafa verið skrifaðir eftir viðtalið. Síðar meir eru það bréf Chips sem skera á línurnar í frásögninni, sem í sjálfu sér er ekki alslæmt og gefur Davies tækifæri til að víkka sjóndeildarhring lesandans. Vandamálið er að bréf Chips eru engan veginn jafn mikillar athygli verð og frásögnin.

Stíllinn hans Davies er mjög lesanlegur og það er alltaf einhver humanistiskur ljómi yfir texta hans og sögupersónur, en, hafandi lesið ritgerðir og ræður eftir hann, þá sé ég alltof vel hversu mikið lífsspeki mannsins takmarkar heiminn sem hann býr til í bókum sínum. Þessi afmarkaði heimur er eitt af því sem gerir mannin auðlesanlegan, en stundum leið mér einsog persónurnar væru fastar í Truman show!

Á endanum kemst maður óumflýjanlega að þeirri niðurstöðu að maðurinn sé alltof mikil brjóstvitsvera til að búa til heilsteypt listaverk. Nú verð ég náttúrulega að vera opinn fyrir þeim möguleika að þessi common sense sjónvinkill á málaralist og leiklist til dæmis séu undan sveitalubbanum Hullah rifi runnin, en þegar hinir karektarnir McWearie og Dwyer eru að fullyrða eitt og annað þá dregur það þónokkuð úr trúverðugleika þeirrar kenningar.

(innskot 2011: las fyrir skemmstu Deptford Trilogy aftur og var miklu ánægðari með hana, enda talin meistaraverk hans.)